Aztiq og Innobic kaupa leiðandi hlut í Lotus og Adalvo
Róberts Wessman leiðir Aztiq II HoldCo
Aztiq og Innobic Asia (Innobic), undir nafninu Aztiq II HoldCo, hafa skrifað undir samning um kaup á 100% hlut í Alvogen Emerging Markets Holding Limited (AEMH) af Alvogen Lux Holding Sarl (Alvogen) en AEMH á leiðandi hlut í Lotus Pharmaceutical og á Adalvo að fullu. Helstu hluthafar Alvogen eru CVC Capital Partners, Temasek Holdings í Singapore auk Aztiq. Kaupverðið er um 475 milljónir dollara.
Með kaupunum verður Aztiq II HoldCo leiðandi hluthafi í Lotus Pharmaceutical og eignast Adalvo að fullu. Aztiq, með Róbert Wessman í broddi fylkingar, annast rekstur Aztiq II HoldCo næstu þrjú árin. Þá verður Róbert Wessman áfram stjórnarformaður Lotus.
Stefnt er að áframhaldandi þróun og vexti Lotus og Adalvo um allan heim. Innobic og Aztiq búa sameiginlega yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af rekstri og uppbyggingu fyrirtækja sem á eftir að nýtast Lotus og Adalvo.
Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvogen og stofnandi Aztiq.Ég er afar stoltur af því starfi sem unnið hefur verið bæði hjá Lotus og Adalvo og það er ánægjulegt að sjá hve þau hafa vaxið og dafnað að undanförnu
Sala Lotus hefur vaxið um 25% á ári síðustu 7 ár og EBITDA um 40% á sama tímabili. Á sama tíma hefur Adalvo á skömmum tíma skilað gríðarlegum árangri og hefur fyrirtækið meðal annars annast alla sölu fyrir Alvotech.
„Ég vil nota tækifærið og þakka núverandi hluthöfum fyrir stuðninginn og samstarfið undanfarin ár og um leið vil ég bjóða nýja samstarfsaðila velkomna. Við munum halda áfram á okkar vegferð og þannig auka aðgengi að lyfjum um allan heim. Ég er sannfærður um að samkeppnisforskot Lotus og Adalvo mun eflast til muna með þeirri sérfræðiþekkingu, yfirgripsmikla viðskiptaneti og trausta aðgengi að mörkuðum í Asíu sem verður til með þessum samningi,“ segir Róbert Wessman.
Lotus vaxið mikið undir stjórn Alvogen
Árið 2012 hóf Alvogen starfsemi sína í Asíu og tveimur árum síðar fjárfesti Alvogen í Lotus. Ávöxtun Alvogen síðan 2012 er að meðaltali 30 % á ári til dagsins í dag. Samheitalyfjafyritækið Lotus hefur á sama tíma haslað sér völl á alþjóðavettvangi og lagt ríka áherslu á þróun, framleiðslu og dreifingu á hágæða krabbameinslyfjum og sértækum taugalyfjum. Fyrirtækið er með eigin sölustarfsemi í 10 löndum en hefur jafnframt samið við leiðandi lyfjafyrirtæki um heim allan sem annast sölu á lyfjum fyrirtækisins í um 130 löndum. Adalvo hefur annast alla samningagerð fyrir hönd Lotus í þeim löndum þar sem fyrirtækið er ekki með eigin sölustarfsemi.
Adalvo eitt þeirra lyfjafyrirtækja sem hafa vaxið hvað mest
Adalvo er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem annast sölu og markaðsmál fyrir fyrirtæki sem ekki eru með eigin sölustarfsemi. Adalvo selur ekki undir eigin vörumerkjum heldur semur við leiðandi lyfjafyrirtæki um heim allan um að annast sölu og markaðsmál á viðkomandi lyfjum. Adalvo sérhæfir sig því í sölu á lyfjahugviti til annarra lyfjafyrirtækja og starfar eftir viðskiptamódeli sem kallast „viðskipti til fyrirtækja“ eða svokallað „business to buisness“. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 og hefur síðan þá vaxið mjög hratt. Viðskiptasamningar Adalvo frá stofnun þess eru um 500 talsins og á vörulista fyrirtækisins eru um 60 lyf. Adalvo er meðal þeirra lyfjafyrirtækja sem hafa vaxið hvað mest á sínu sviði á heimsvísu og er með viðskiptavini í yfir 100 löndum.
Markmið Lotus og Adalvo er að auka aðgengi sjúklinga að hágæða lyfjum á sanngjörnum verði. Með aðkomu PTT verður lagt enn frekara kapp á að efla þróunarstarfsemi og vöruúrval Lotus og Adalvo og þannig halda áfram að greiða götuna og auka aðgengi fólks um allan heim að hágæða meðferð og lyfjum.
Dr.Buranin Rattanasombat, varaforseti nýsköpunar hjá PTT og stjórnarformaður Innobic (Asíu), segir að Lotus reki alhliða lyfjafyrirtæki sem spannar allt frá þróun yfir í framleiðslu og dreifingu. Sérstaða Lotus sé einnig fólgin í því að Lotus einbeiti sér að samheitalyfjum, sérstaklega á sviði krabbameinslækninga og taugasjúkdóma. Fjárfesting Innobic er því í fullu samræmi við þá stefnu PTT að sameinast fyrirtækjum sem einbeitir sér að því að bæta heilsu fólks.
Dr.Buranin Rattanasombat, varaforseti nýsköpunar hjá PTT og stjórnarformaður Innobic (Asíu)Samstarf tveggja öflugra fjárfestahópa sem sameina krafta, þekkingu og reynslu, er mikil lyftistöng og styður við markaðssetningu á Innobic á og styður uppbyggingu á sviði lýðheilsu- og lyfjaiðnaði í Taílandi og nærliggjandi löndum.
Tomas Ekman, stjórnarmaður, Alvogen Lux segir við þetta tilefni: „Eftir7 ár sem kjölfestu fjárfestir í Lotus er komið að þeim tímamótum að selja okkar hlut og láta Aztiq og Innobic halda áfram þeirri vegferð sem Lotus er á. Bæði Adalvo og Lotus munu halda áfram nánu samstarfi við Alvogen fyrirtækjasamstæðurnar. Salan í dag á Adalvo og Lotus eru í samræmi við þá langtíma stefnu sem var mótuð á sínum tíma og mun Alvogen ráðstafa söluandvirðinu með það í huga að hákmarka arðsemi hlutahafa Alvogen. “