Alvotech undirbýr skráningu á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi
Alvotech var skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi í júní 2022 og undirbýr nú að færa skráningu á Íslandi yfir á Aðalmarkaðinn. Skráning á Aðalmarkaðnum eykur sýnileika og opnar leið til þátttöku í innlendum og alþjóðlegum hlutabréfavísitölum.
Alvotech hefur tilkynnt að stjórn félagsins hefði samþykkt áætlun um að undirbúa skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland, en félagið er nú skráð á Nasdaq First North Growth markaðinn hér á landi. Að loknu ítarlegu umsóknarferli verður ljóst hvort bréf Alvotech verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaðnum. Með skráningu á Aðalmarkaðinn ættu hlutabréf í félaginu að ná til breiðari hóps. Þá getur skráð fyrirtæki á Aðalmarkaðnum átt möguleika á að vera valið til þátttöku í innlendum og erlendum hlutabréfavísitölum. Í september næstkomandi munu skráð fyrirtæki á Aðalmarkaðnum, sem uppfylla kröfur um veltu og fleiri þætti, eiga möguleika á að vera skráð í nokkrar nýmarkaðsvísitölur FTSE Russell. Val á íslenskum hlutabréfum til þátttöku í FTSE vísitölunum er endurskoðað reglulega eða á sex mánaða fresti.
Hlutabréf í Alvotech eru nú skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðnum í Bandaríkjunum og Nasdaq First North Growth markaðnum á Íslandi undir auðkenninu „ALVO“ og hófust viðskipti með bréfin í Bandaríkjunum 16. júní 2022 og á Íslandi 23. júní 2022.
Róbert Wessman, stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech.Við erum mjög spennt fyrir því að hefja umsóknarferlið til að færa viðskipti með hlutabréf í Alvotech yfir á Aðalmarkaðinn á Íslandi, eftir að við náðum þeim áfanga að vera fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er samtímis í Bandaríkjunum og á Íslandi.
Nasdaq First North Growth markaðurinn er markaðstorg með hlutabréf sem starfar eftir einfaldari reglum en Aðalmarkaður Nasdaq Iceland, auk þess sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um gagnsæi í tengslum við útgefendur verðbréfa (2004/109/EC) gildir ekki um viðskipti með hlutabréf á slíku markaðstorgi. Móðurfélag Alvotech er skráð hlutafélag í Lúxemborg, og ef flutningur á Aðalmarkaðinn á sér stað myndi þarlent fjármálaeftirlit,Commission de Surveillance du Secteur Financier(CSSF), teljast eftirlitsaðili samkvæmt skilgreiningu gagnsæistilskipunarinnar.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Alvotech.